Dauðinn og treginn stíga dans

Með dauðann og tregan dansandi tangó innan í mér í holinu milli magans og lungnanna gekk ég í áttina til þín þar sem þú sast í svartri brekkunni. Svartri brekkunni þar sem ekkert sást því sólin faldi sig hinum megin við hólinn og litaði himininn appeslínugulan, gulan, grænan, ljósbláan, bláan og svo dökkbláan. Ég fór með þá félaga dauðann og tregann innvortis til þín í biksvarta brekkuna og stóð fyrir framan þig, setti einn fótinn á stein sem lá á milli okkar, eins konar valdataktík. Þú horfðir upp, grett eins og þú værir við það að fara að hlæja, en þú hlóst ekki. Ég setti hendurnar á mjaðmirnar og gretti mig á móti og hló að þér. Hló til að verða á undan þér, til að vera fyrri til svo þú gætir ekki hlegið að mér. Þú brostir að mér, en hlóst ekki. Ég tók fótinn af steininum og játaði mig sigraða. Dauðinn og treginn skelltu upp úr innan í holinu milli magans og lungnanna og spíttu í lófana svo það dundi í lifrinni undan fótum þeirra. Ég teiknaði hringi með tánum á sigraða fætinum og reyndi að hunsa dynkina í dansandi fótum dauðans og tregans. Ég leit ekki upp til þín en fann að þú horfðir á mig. Horfðir á hnakkann á mér, mjúklega eins og þú gerðir alltaf. Mjúklega ánn þess að hlæja að mér. Ég hafði aldrei skilið hvernig þú fórst að því að gera augun þín svona mjúk. Gera augnaráð þitt svona ótrúlega mjúkt. Þessi slepjulegu, blautu og ógeðslegu líffæri sem virtust glær og útstæð á andlitinu mínu. Einu sinni eftir að við höfðum setið lengi saman og horft í augun hvor á annarri. Þá stóð ég fyrir framan speglinn inni á baði og starði í augun á mér og reyni hvað ég gat að gera augun mín mjúk eins og þín. En allt án árangurs. Augun mín héldu bara áfram að vera slepjuleg, blaut og ógeðsleg. En augun þín voru langt frá því að vera slepjuleg, blaut og ógeðsleg. Þau voru andstæða augna minna, og ég saknaði þeirra. Svo ég leit upp. Og þarna voru þau, mjúk eins og alltaf. Mýkri en alltaf og glansandi, en ekki glansandi slepjulega eins og mín sem litu alltaf út fyrir að geta bráðnað á hverri sekúndu og slepjast út um tóftirnar á mér og niður kinnarnar að munnvikunum og niður hálsinn. Þín voru glansandi eins og lækurinn við gilið í sólskini þegar allir litlu droparnir vilja sýna að fegurðin býr í þeim. Þú horfðir á mig, inn í mig með mjúkum glansandi lækjaraugum og treginn tók dauðann í fangið og kastaði honum yfir annan handlegginn svo dauðinn gæti sveiflað öðrum fætinum upp í loftið. „Ég elska þig“ sagði ég og dauðinn datt úr örmum tregans á lifrina mína. Þú leist niður, á hringinn sem táin mín hafði teiknað í sandinn. Hægri hendin þín leitaði eftir vinstri hendinni minni, tók utan um hana og færðir hana í vinstri höndina. Þar huldi hægri hendin þín hendina mína aveg og þú leist upp á mig með mjúku augunum þínum sem glönsuðu enn meira en áður. „Þú veist að ég elska þig líka, hef alltaf gert og mun alltaf gera“. Lækjardroparnir liðuðust út um tóftirnar á augum þínum og streymdu niður kinnarnar að munnvikunum. „En ég get ekki verið með þér, get ekki fylgt þér, hef aædrei getað gert það og mun aldrei geta það“. Ég horfði á lækina úr augum þínum glansandi fegurð sinni úr hverjum dropa þótt sólin væri löngu sest. Ég barðist við að halda augunum mínum frá bráðnun og reyndi hvað ég gat að hunsa dauðann sem krafsaðist á lifrinni í tilraun sinni til að standa upp á meðan treginn stóð við hlið hans hlæjandi af sér allar spjarirnar. Ég tók hendina mína úr höndum þínum og kyngdi eldinum sem vildi bræða augun mín. „é…. é..g..“ stamaði ég út úr mér en kláraði aldrei og þegar ég ætlaði að enduteka það sem ég vildi að segja en hafði nú þegar löngu gleymt, þá varstu horfin. Þá varstu horfin inn í myrkrið, með glansandi fegurðina í læknum í dropunum í glansandu mjúku augunum þínum svo ég snéri við, horfði á stjörnurnar og leyfði eldinum að bræða í mér augun á leiðini heim.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband