13.9.2023 | 16:45
Grænir sneplar
Fimmhundruð sextíu og sjö grænir sneplar hanga á þvottasnúrunni í rjóðrinu. Á hverjum og einum þeirra er hvít klemma sem endurkastar sólarljósinu í augun á þér. Þú situr á steini sirka tuttugu og fjórum metrum frá þrjúhundruð og fimmtugasta sneplinum. Þú starir á sneplana og klemmurnar. Starir og starir svo mikið og ákaft að ég er orðin viss um að þú munir bráðum missa sjónina eða að sneplarnir muni brenna mynd sína í augnhimnurnar þínar svo þú munir aldrei sjá neitt framar en græna snepla með hvítum klemmum. Ég hrylli mig við tilhugsunina, tek hendurnar upp úr barmafullum balanum og vindi grænan snepil sem ég hengi síðan upp á snúruna með hvítri klemmu. Fimmhundruð sextíu og átta segi ég við sjálfa mig. Þú hummar eins og lítill fugl til samþykkis en tekur ekki augun af sneplunum og klemmunum. Ég sting höndunum aftur í balann svo vatnið skvettist aðeins upp úr. Vatnið er volgt og sneplarnir eru mjúkir, ég loka augunum og finn fyrir volgu mýktinni. Ég hef alltaf haft gaman að því sem er volgt og mjúkt. Manstu eftir mjúka pokanum sem þú áttir? spyr ég þig sem var alltaf svo mjúkur og volgur?. Þú svarar ekki. Ég opna augun, finn enn fyrir volgri mýkt sneplanna og vatnsins. Þú starir enn á sneplana. manstu?, þú gekkst alltaf með hann yfir túnið hjá manninum með mosa græna stafinn og hafbláa hattinn á leiðinni yfir að húsinu okkar? Þú hreyfir hendurnar örlítið á hnjánum, pinkupons, það er varla að ég sjái mun. Ég tek hendurnar upp úr vatninu og vindi annan snepil. Þú áttir það til að tína greinar sem þú fannst á leiðinni ofan í pokann, þú sagðir að þér þætti greinar það allra besta í öllum heiminum, manstu eftir því? Ég hengi upp snepilinn með hvítri klemmu. og svo þegar þú komst að húsinu okkar var pokinn þinn fullur af greinum, svo fullur að þær rúlluðu næstum út úr honum á pallinn, manstu eftir því? Ég held höndunum á sneplinum og klemmunni og lít til þín. Þú hefur ekkert hreyft þig. Fimmhundruðsextíu og átta segi ég við þig og þú hummar en hreyfir þig ekki og heldur áfram að stara á grænu sneplana og hvítu klemmurnar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.